7 skref silkiprentunar

1. Forvinna

Öll verkefni byrja í grafíkdeild Bros, þar eru merki aðlöguð að prentgrip og gerð er próförk fyrir viðskiptavin.

2. Filmur

Eftir að próförk er samþykkt er merkinu litaskipt og keyrt út á filmur, fyrir silkiprentun er hver litur keyrður út á sér filmu. Merkið er prentað með vel þekjandi svörtum lit á glærar filmur ásamt krossum til að hjálpa prentara að stilla litum saman.

3. Rammar

Notast er við lýsingarvél til að brenna merkin í prentmót. Það er gert með því að filman er lögð á glerplötu milli prentmótsins og ljósgeisla. Ljósið brennir efnið fast í prentmótið og þeir fletir sem merkið á filmunni lokaði fyrir ljósinu skolast burt með vatni, eftir situr því merkið í prentmótinu.

4. Prentvél

Nú þegar prentmótin hafa fengið tíma til að þorna er þeim stillt í prentvélina, prentmótunum er vandlega stillt saman eftir krossunum svo allir litir passi saman.

5. Prentun

Litum er blandað eftir Pantone litakerfinu og litunum raðað upp á þau prentmót þeir eiga við.
Flíkunum er þrætt upp á platta sem búið er að spreyja með efni sem heldur þeim á sínum stað á meðan merkið er prentað á flíkurnar. Plattinn fer hringinn, undir öll prentmótin sem skila sínum lit merkisins á flíkina.

6. Ofninn

Loks eru flíkurnar settar í gegnum ofn sem hitar þær nægilega mikið til þess að málningin í merkinu nái að þorna almennilega svo hægt sé að meðhöndla þær strax.

7. Afhending

Þá eru flíkurnar komnar úr silkiprentun, brotnar saman, raðað í kassa og tilbúnar í notkun.